Alissa Rannveig Vilmundardóttir Fyrir ári síðan þegar ég sagði fólki að ég ætlaði að hjóla í kringum Ísland til styrktar krabbameinsrannsóknum fékk ég misjöfn viðbrögð. Sumir voru spenntir, aðrir voru efins, enn aðrir vissu hreinlega ekki hvernig ætti að bregðast við svona fréttum. Hins vegar voru flestir sammála um að ég væri klikkuð. Ég hafði aldrei tekið þátt í, hvað þá skipulagt eins míns liðs, svona stórt átak. Ég vissi ekki einu sinni hvar ég átti að byrja!

Margt hefur gerst síðan ég tilkynnti áform mín. Ég tók mér ársfrí frá skóla til að ferðast og læra tungumál, og bjó fyrir áramót í Vín og eftir áramót í París. Þegar ég sá að ég kæmi ekki heim frá París fyrr en um mitt sumar og yrði því ekki í vinnu seinni hluta sumarsins, varð mér strax ljóst að þetta væri fullkominn tími fyrir ferðina. Mig hafði dreymt um hana svo lengi en aldrei haft tækifæri til að sjá hana verða að raunveruleika.
Þar sem ég var erlendis alveg fram til júlí fór meirihluti undirbúningsins fram í gegnum netið. Það var alveg ótrúlegt hversu viljugt fólk var til að hjálpa mér og ég fékk góð ráð úr öllum áttum. Ég hafði aldrei farið í kringum Ísland áður og reyndar aldrei verið mikil hjólareiðakona, þótt mér fyndistmjög gaman að hjóla. Eftir jól tóku við stífar æfingar. Ég keypti þrekhjól og fékk að koma því fyrir í æfingasal í kjallara húsnæðis míns í París. Eftir að ég kom heim til Íslands tók við frágangur ferðarinnar og svo var bara aðað hjóla af stað.


Ég lagði af stað þann 9. ágúst frá Læknagarði þar sem Rannsóknastofa í krabbameinsfræðum er til húsa. Þar kom saman hópur af fólki til að kveðja mig. Foreldrar mínir fylgdu mér á bíl með tjaldvagn í kringum landið svo ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af gistingu eða farangri. Pabbi minn hjólaði suma daga með mér hluta af leiðinni þannig að ég hafði stundum félagsskap. Annars var það bara ég, iPodinn og vegurinn framundan. Ég fékk mjög gott veður fyrstu dagana og stoppaði fyrsta daginn á Skógum eftir 155 km, í Skaftafelli annan daginn eftir 170 km og komst svo til Hafnar í Hornafirði á þriðja deginum eftir að hafa næstum því verið keyrð út af. Ég hafði mætt mjög óþolinmóðum bílstjóra á einbreiðri brú og fór dálítið illa í hnénu. En skömmu seinna þá stoppaði mig bíll og konan rétti mér peningaseðil til styrktar krabbameinsrannsóknum. Það var mjög upplyftandi! Ég var fegin að hafa náð að halda áætlun fyrstu þrjá dagana, það munaði svo miklu að fá góða byrjun. Það sem kom mest á óvart var hvað ég fékk frábærar móttökur í umferðinni, fólk flautaði og veifaði og ég fékk mjög gott svigrúm á veginum. Ég var mjög þakklát fyrir það.
Landslagið hingað til í ferðinni hafði verið mjög flatt en á fjórða degi kom ég af undirlendinu og fór á firðina. Það þýddi að í staðinn fyrir að hjóla í marga tíma samfleytt án þess að nokkur breyting sæist á landslaginu hjólaði ég endalaust upp og niður, inn og út. Brekkurnar upp voru ekki svo slæmar þegar maður gat rennt sér niður hinum megin! Í Berufirði, á fimmta degi fékk ég mikla rigningu en þrátt fyrir að vera blaut í gegn sló það ekki á góða skapið. Alltaf þegar mér fannst ég vera þreytt eða að missa móðinn minnti ég sjálfa mig á til hvers ég væri að gera þetta, og þá varð yfirferðin auðveldari. Eftir miklar vangaveltur ákváð ég að fara um Austfirðina, þó svo að Þjóðvegur 1 liggi um Breiðdalsheiði. Ég hafði aldrei komið á Austfirðina áður og vildi ekki missa af bæjum á leiðinni eins og Breiðdalsvík, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði, og þessir auka 10 km voru vel þess virði til að kynna átakið víðar. Var komin til Egilsstaða um kvöldmatarleytið og hlustaði á tónleikana á Ormsteiti. Næsta morgun sprakk dekk hjá mér og hægði það dálítið á ferðinni, en þetta er allt hluti af upplifuninni. Vandræðalegasti hluti ferðarinnar átti sér stað þegar ég hjólaði á vegastiku í Jökuldal! Ég var rosalega heppin með veðrið á þessum kafla ferðarinnar, þar sem ég fékk góðan meðvind yfir öræfin, meðfram Mývatni og alla leið til Akureyrar. Aðra sögu má segja um ferð mína milli Akureyrar og Blönduóss, en þá fékk ég sterkan mótvind næstum því alla leið. Ég þurfti meira að segja að stíga hjólið niður í móti niður Öxnadalsheiðina! Þegar ég var komin að Varmhlíð með 90 km að baki var ég jafn þreytt og venjulega eftir heilan dag, og sá þá fram á aðra 55 km í viðbót. Næstsíðasti dagur ferðarinnar var góður þrátt fyrir að hafa týnt símanum mínum út í móa og lent í mikilli þoku á Holtavörðuheiðinni. Ég stoppaði í Hreðavatnsskála með ekki nema 100 km eftir til Reykjavíkur. Frændi minn hjólaði með mér síðasta daginn og við fengum góðan meðvind þannig að við eiginlega bara fukum í bæinn. Við mættum í Mosfellsbæ rétt fyrir kl. 17 og þangað söfnuðust allmargir sem hjóluðu með okkur að Læknagarði. Þar afhenti Vigdís Finnbogadóttir, verndari ferðarinnar, forstöðukonum Rannsóknastofunnar skjal til marks um upphæðina sem safnast hafði í nafni málstaðarins og við fögnuðum öll saman ferðalokum. Að sjá hversu margir hjóluðu með síðasta spölinn og hversu margir tóku á móti okkur við Læknagarð gerði mér ljóst að markmiði mínu að kynna og styrkja Rannsóknastofuna hafi verið náð og öll vinnan þess virði.
Það sem kom mest á óvart var hvernig ferðin virtist líða á ofurhraða. Miðað við hvað mig dreymdi um þessa ferð lengi og sérstaklega hve ég eyddi miklum tíma í að undirbúa hana síðustu 8 mánuði, þá eiginlega þaut ferðin hjá á engri stundu. Ekki hefur enn komið í ljós hversu miklu var safnað í heild. Ég bíð ennþá eftir að áheitin skili sér inn í safnaðarreikninginn en ef allt kemur inn sem hefur verið lofað þá erum við komin með miklu hærri upphæð en ég hafði þorað að vona. Enn er hægt að leggja málefninu lið með því að leggja inn á reikninginn 0115-15-630829, kt. 020887-2069. Myndir frá ferðinni og dagbókarfærslur má finna á heimasíðu átaksins: www.facebook.com/Okkar.leid
Ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka öllum sem sýndu átakinu stuðning, ég hefði ekki getað gert þetta án ykkar! Takk fyrir ævintýralega ferð :)