8788492 og losa! Búin að kaupa sólarhringsleigukort að Velib’ hjól og París er mín. Svona einfalt er að ferðast um París fyrir 1 evru á dag. Við sannreyndum það mæðgur á ferð okkar um borgina á dögunum. Fyrir þessa einu evru vorum við með afnot af Velib’ hjóli í sólarhring og komumst á einkar ánægjulegan hátt um alla borgina.

Stöðvarnar liggja þétt og við höfðum hvert hjól í 30 mín. í senn. Utan við húsið okkar í hverfi 9 voru 28 m í næstu hjólastöð. Þar biðu þau eftir okkur; u.þ.b. 20 hjól í röð sem við gátum valið á milli. Ég valdi alltaf hjól sem var með heilleg handföng og virtist í góðu standi. Einstaka sinnum mátti sjá hjól með slitna keðju eða laskað að öðru leyti. Hins vegar er líklegt að þau hafi verið fljótlega fjarlægð af starfsmönnum JCDecaux og einkennandi var hversu heilleg flest hjólin voru.

 

 

Leigustaur

 

Frábær ferðamáti!

Á fyrstu leigustöðinni sem við komum á byrjuðum við á því að gera rafrænan samning með því að setja krítarkort í leigustaurinn. Samningurinn var á ensku og ég gat notað sama krítarkortið til þess að leigja fleiri en eitt hjól. Á hverjum leigustaur gat ég auðveldlega séð hvar næsta stöð var staðsett og fullyrða þeir sem að Velib’ standa, að aldrei sé meira en 300 m á milli stöðva. Fyrir leigu á hjóli í sólarhring greiddi ég 1 evru. Vikuleigan er á 5 evrur.

 

La Défense

Við þeyttumst um borgina; Sigurbogin; (þar er engin skiptistöð), Boulogne-garðurinn, Trocadero, Effelturninn, Champs Elysées – hjólinu lagt, gengið á milli verslana og endað á nýrri hjólastöð – hjólað heim. Næsta dag fórum við fram hjá Louvre; að Lúxemborgargarðinum – skildum hjólin eftir og gengum í gegnum garðinn. Tókum svo ný hjól á næsta viðkomustað og eftir góðan hammara var ákveðið að taka metróið að Sacre-Caur Basilikunni. Þannig fengum við með Velib’ splunkunýja mynd af borginni; vorum þátttakendur í umferðinni og vorum ofanjarðar á þægilegum ferðum um borgina.

 

 

 

Úps!

Auðvitað lentum við stundum í vandræðum, t.d. þegar átti að skoða Pompidou-safnið. Þá var allt fullt á öllum leigustöðvum allt í kringum safnið. Í slíkum vanda er hægt að framlengja sama hjól í 15 mín. með því að slá inn leigukóðann á leigustaurnum.Við hjóluðum framhjá 5 stöðvum áður en við fundum tvö laus stæði. Þá vorum við komnar 300 m frá safninu og notuðum tímann á meðan við gengum til baka til að fá okkur Nutella fyllta pönnuköku – sem bragðaðist einkar ljúflega í janúar­kuldanum.

 

 


Eins komumst við að því að stöðvarnar eru ekki utan við hringveginn sem umlykur París. T.d. er engin stöð í La Défense og því vorum við meira en 30 mín. á hjólinu. Þá þurftum við að borga auka evru.

Gæðahjól

Upplifunin á því að vera á Velib’ hjóli í París var stórskemmtileg. Þetta eru sterk hjól, maður situr þægilega á þeim, þau eru þriggja gíra og með dýnamó ljósi að framan og aftan. Hjólin eru með stýriskörfu og auðvelt að aðlaga þau stærð fullorðinna. Eins eru bretti á hjólunum, fram og aftur og lás, svo hægt er að skilja þau eftir án þess að skila þeim á leigustöð. Miðað er við að notendur séu orðnir 14 ára.

 


 

Sjá nánar á www.velib.paris.fr

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.