Hjólaferð með 8. bekk 2009 Það var snemma að morgni fimmtudagsins 27. ágúst síðastliðinn sem vaskur 40 manna hópur 8. bekkinga í Norðlingaskóla (17 nemendur) og Kópavogsskóla (23 nemendur) lagði upp í tveggja daga hjólaferð um hálendi Íslands. Hvað Norðlingaskóla varðar var ferðin fyrsti liðurinn í því að innleiða metnaðarfulla útivistaráætlun í öllum árgöngum skólans. Fararstjóri ferðarinnar var Kristín Einarsdóttir sem meðal annars hefur átt veg og vanda að útivistarferðum Smáraskóla undanfarin ár. Rútufyrirtækið Snæland-Grímsson lagði af rausnarskap sínum til rútu, jeppa, kerrur og bílstjóra sem fylgdu krökkunum allan tímann en auk bílstjóranna og Kristínar voru þrír kennarar með í för, tveir frá Norðlingaskóla og einn frá Kópavogsskóla, auk hjálparsveitarmanns sem einnig þjónaði hlutverki hjólaviðgerðarmanns.

Norðlingar hófu ferðalagið á því að hjóla frá Norðlingaskóla um 9 km leið að Kópavogsskóla þar sem hjólin voru sett inn í rútu og kerrur og síðan var lagt af stað akandi austur á Hvolsvöll. Þar var stoppað til að borða nesti og síðan ekið áfram upp afleggjarann að Keldum og upp að Laufafelli á Landmannaafrétti þar sem hjólin voru tekin úr bílunum og hin eiginlega hjólaferð hófst. Ferðinni var heitið upp að Hvanngili þar sem ætlunin var að gista um nóttina. 

 

Hópurinn

 

Tilgangurinn með svona ferðum er meðal annars að þjappa nemendahópnum saman og gefa krökkunum tækifæri á að kynnast á annan hátt en unnt er í hefðbundnara skólastarfi. Nemendur þurfa að takast á við sjálfa sig og náttúruna sem aldrei fyrr og í svona ferðum reynir einnig meira á samstöðu, kjark, umhyggju og þrautseigju en víðast annars staðar. Nemendur eru fjarri foreldrum, farsímum og hvers konar afþreyingartilboðum og þurfa að stóla eingöngu á sig sjálfa eða aðstoð og hvatningu samnemenda sinna og kennara. Þeir kynnast styrkleikum og veikleikum hvers annars sem þeir annars myndu jafnvel ekki kynnast og læra þannig að sjá og meta fjölbreytnina í nemendahópnum. Varla er hægt að hugsa sér ákjósanlegri né mikilvægari lið í skólastarfi skóla eins og Norðlingaskóla sem skilgreinir sig sem húmanískan og ekki síður húmorískan skóla og hefur það á stefnuskrá sinni að útskrifa sterka, sjálfstæða og ekki síst lífsglaða einstaklinga (úr skólastefnu Norðlingaskóla).


Það setti þó nokkurt strik í reikninginn snemma í ferðinni að einn nemendanna varð fyrir því óhappi að detta illa og meiða sig. Áverkar og einkenni voru þess eðlis að ráðlegt þótti að kalla á sjúkraþyrlu til að sækja hann og koma honum á sjúkrahús, enda talsverðar líkur á því að stýri hjólsins hefði gengið inn í kvið hans og ollið þar innvortis skaða. Í þessu tilviki skipti miklu að í hópnum var bæði reyndur hjálparsveitarmaður einnig bráðahjúkrunarfræðingur. Öll viðbrögð urðu því rétt og fumlaus og eins og best verður á kosið. Einnig vorum við þakklát talstöðvunum sem gerðu okkur kleift að eiga nauðsynleg samskipti við umheiminn vegna slyssins. Seinna kom í ljós að þó að öll bein væru óbrotin, hafði rifa komið á lifur nemandans og þar með orðið svolítil innvortis blæðing.


Það var því beygður og örlítið taugaskekinn hópur sem hélt ferðinni áfram staðráðinn í því að fara varlega og hafa hjálmana rétt stillta á höfðinu. Framundan var frábær og ævintýraleg ferð með brekkum bæði stórum og litlum, upp í móti og niður í móti og það sem var kannski kvíðvænlegast í fyrstu en spennandi þegar á leið; við þurftum að vaða yfir ár, bæði stórar og litlar með hjólið í fanginu og einn og einn nemandi átti jafnvel kannski eftir að missa jafnvægið og detta í ískalt vatnið!


Á eftir okkur mallaði rútan með farangurinn okkar, tilbúin að aðstoða ef eitthvað kæmi upp á. Það var þó ekki í boði að setjast inn í rútu nema mjög gild ástæða væri til og þegar á leið kærði sig auðvitað enginn um það enda voru nemendur fljótir að læra það að áskoranir eru til þess eins að sigrast á þeim – saman.


För okkar hafði tafist talsvert vegna slyssins, auk þess sem hjól og hjólreiðamenn voru í misjöfnu ásigkomulagi til að byrja með. Við þurftum því að stoppa oft til að þétta hópinn, herða skrúfur, hækka hnakka og laga bremsur. Allt gekk þetta þó að lokum og við vorum komin í skála Ferðafélag Íslands í Hvanngili upp úr kl. 22.00 um kvöldið, afskaplega svöng og þreytt en jafnframt ánægð með dagsverkið. Þá var strax tekið til við að elda mat og á meðan hafði skálavörðurinn í Hvanngili ofan af fyrir krökkunum með söng og gítarspili. Heyrst hefur að steiktur fiskur og kartöflur hafi sjaldan eða aldrei bragðast jafn vel og það voru þreyttir og sælir ferðalangar sem lögðust til hvílu þetta kvöld með fullan magann af þessu hnossgæti.

 


Þar sem komið var myrkur þegar við komum í skálann var ekki hægt að gera við biluð hjól um kvöldið eins og til stóð. Það var því fyrsta verk viðgerðarmannsins þegar birti aftur að smyrja keðjur, bæta slöngur og herða rær, á meðan nemendur borðuðu morgunmat, smurðu sér nesti til dagsins og pökkuðu dótinu sínu í rútuna aftur. Lagt var af stað um kl. 11.30.


Ferðinni var heitið eftir Syðri-Fjallabaksleið, niður Emstrur og niður á Einhyrningsflatir þar sem rútan átti að taka hjólreiðafólkið upp í. Framundan var Kaldaklofskvísl (með göngubrú yfir) og stærstu brekkur (bæði upp í móti og niður í móti) sem sumir höfðu komist í tæri við – að minnsta kosti hjólandi! Talsverður straumur var í Bláfjallakvíslinni þegar þangað kom og eftir nána athugun hjálparsveitarmannsins var ákveðið að hluti nemenda fengi far með rútunni yfir ána á meðan aðrir nutu aðstoðar þeirra fullorðnu sem stilltu sér upp í ánni og hjálpuðu nemendum yfir. Ekki vildi þó betur til en svo að í hita leiksins missti einn kennarinn (undirrituð) fæturna undan sér og datt á kaf í ána. Sú öryggisráðstöfun að setja síma og myndavél í brjóstvasann dugði ekki í þessu tilfelli og verður væntanlega fundin önnur lausn á því næst. Eftir að umrædd tæki höfðu fengið að hvíla í miðstöðvarhita bílsins í nokkra klukkutíma fóru þau þó að virka á ný og í ljós kom að lítill sem enginn skaði skeður. Í þessu tilfelli sem öðrum var dýrmætt að geta lært af óhappinu og helst gera svolítið grín að því líka. Fötin þornuðu líka fljótt enda sólin farin að skína og reyndar má segja að veðrið hafi leikið við okkur alla leiðina. Slíkt er dýrmætt þegar teygist á hópnum og þeir fremstu þurfa að stoppa oft og bíða eftir hinum.


Þökk sé veðrinu og einstaklega skemmtilegum nemendum urðu biðstundirnar oft að miklum gæðastundum þar sem staðkunnugir nemendur gátu ausið úr viskubrunni sínum og sagt hinum sögur en einnig urðu til hvatningarhróp eða hamingjuóska-athafnir handa hinum sem tíndust einn af öðrum upp erfiðust brekkurnar og bættust þar með í hópinn. Þegar stansað var til að borða gáfust líka tækifæri til að hlaupa upp á næsta hól eða klett ef losa þurfti um aukaorku.


Þegar komið var niður á Einhyrningsflatir um kl. 17.00 voru hjólin sett í rúturnar og haldið áleiðis til Hvolsvallar. Þar beið okkar dýrindis pítsu-veisla og það má svo sannarlega segja að nemendur hafi unnið fyrir henni. Eftir matinn var svo haldið heim til Reykjavíkur í faðm fjölskyldna og vina.


Einhverjir ferðalangar urðu rass-sárir og aðrir fengu smá skeinur eða skrámur í ferðinni, jafnvel marbletti en það var umfram allt glaður og ánægjulega þreyttur hópur sem sté út úr rútunni og hvarf heim með foreldrum sínum þetta kvöld, stoltur af afrekum síðustu daga. Væntanlega hafa þeir átt athygli fjölskyldunnar það sem eftir lifði kvölds með ferðasögur sínar, enda ekki á hverjum degi sem 12 og 13 ára krakkar vaða Markarfljót eða Bláfjallakvísl með hjólið sitt í fanginu!

Halla Magnúsdóttir

 Halla Magnúsdóttir