Ég vildi gjarnan deila með áhugafólki um hjólreiðar, ferð sem við fjölskyldan og tveir vinir fórum í sumar frá Reykjavík til Laugarvatns. Þetta er mjög létt og skemmtileg leið. Við höfðum ákveðið að leggja af stað í þessa ferð þann 16. júní. Þegar vika var til stefnu bentu veðurspár til þess að þennan dag yrðu 15-17 metrar á sekúndu og þó ég sé nokkuð vanur hjólreiðamaður finnst mér ekki gaman að hjóla í miklum vindi. Vegna veðurfars á Íslandi er oft gott að vera með plan B. Í okkar tilfelli breyttum við dagsetningunni í 17. júní og var því ferðin enn hátíðlegri en ella. Allir voru orðnir mjög spenntir og veðurspáin var frábær; logn og sól!!

Við lögðum af stað úr Árbænum um kl. 6:30 að morgni. Allur farangurinn var komin í hjólakerruna og svo voru nokkrir með léttan pakpoka. Leiðin lá í átt að Mosfellsbæ og þaðan inn á Þingvöll og svo yfir Lyngdalsheiðina austur að Laugarvatni. Við ákváðum að fara svona snemma til þess að vera laus við umferðina því stór dagur var framundan hjá íslensku þjóðinni. Okkur er meinilla við að hjóla innan um bílaumferð og finnst það drepleiðinlegt, enda vill maður helst vera laus við vélarhljóðin nálægt sér í þessu dásamlega sjálfbæra sporti sem hjólreiðarnar eru.

Við byrjuðum á að hjóla á hjólastígum meðfram Rauðavatni og upp að Morgunblaðshúsinu í Hádegismóum en þaðan liggur svo skemmtilegur hjólastígur meðfram golfvellinum og upp í Grafarholt. Hjólastígarnir teygja sig langleiðina upp í Mosfellsbæ. Við fórum inn á Vesturlandsveginn en aðeins stuttan kafla á leiðinni. Þegar komið var í Mosfellsbæinn hvíldum við okkur í stutta stund, allir í banastuði og ekki hægt að fá betra veður til þess að hjóla.

Við héldum áfram frá Mosfellsbæ og fórum inn á hjólreiðarstíg sem liggur alla leið upp að Gljúfrasteini. Sú leið er mjög skemmtileg. Stígurinn endar við Gljúfrastein, þannig að þar þurftum við að færa okkur inn á þjóðveginn. Á þessari leið hjóluðum við í beinni línu og fremsti og síðasti maður í hópnum voru í gulum vestum til að sjást betur. Þegar komið var á Þingvöll höfðum við hjólað u.þ.b. 50 km leið og klukkan aðeins rétt rúmlega tíu. Við tókum okkur góða nestispásu í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum og viðruðum tærnar.



Frá Þingvöllum héldum við ferð okkar áfram eftir Þingvallavegi í áttina að Gjábakkavegi sem liggur yfir Lyngdalsheiði. Þegar ferðin yfir Lyngdalsheiðina hófst fóru menn að fækka fötum enda sólin orðin ansi sterk og nokkrir orðnir vel sveittir. Við tókum síðan aftur góða pásu hjá Laugarvatnshelli þegar u.þ.b. 8 kílómetrar voru eftir til Laugarvatns en héldum síðan áfram ferð okkar og varð leiðin sífellt fallegri eftir því sem við nálguðumst áfangastaðinn. (Til fróðleiks má geta þess að Laugarvatnshellar eru sandsteinshellar í Reyðarbarmi skammt frá Gjábakkavegi. Síðast bjó fólk í einum þeirra um fjögurra ára skeið frá 1918- 1922).



 

Þegar við komum á leiðarenda beið okkar lítil íbúð á farfuglaheimilinu í gamla pósthúsinu á Laugarvatni. Við ákváðum að taka hvorki tjald né svefnpoka með okkur, heldur kusum að sofa í uppábúnum rúmum og leyfa okkur svolítinn lúxus eftir afrekið. Við getum mælt sérstaklega með því við hjólafólk að gista á þessu farfuglaheimili, þar sem við vorum með aðgang að eldunaraðstöðu og matsal ásamt heitum potti fyrir mjög sanngjarnt verð. Auk þess er þar mjög góð aðstaða til að geyma hjólin á sólpalli bak við hús en þar höfðum við sérinngang inn í íbúðina okkar.

Þjóðhátíðardeginum eyddum við svo á Laugarvatni í góðu yfirlæti, sáum skrúðgöngu og fleira, keyptum í matinn og elduðum kvöldmat en aðalatriðið var samt að fara í heita pottinn sem fylgdi gistingunni.

Daginn eftir var haldið af stað heim sömu leið yfir Lyngdalsheiðina og þaðan inn á Þingvallaveg. Veðrið var enn þá ágætt en þó heldur meiri vindur en daginn áður og jafnvel talsvert rok á köflum. Við hjóluðum eftir Þingvallavegi, norður fyrir vatnið og að þjónustumiðstöðinni þar sem við stoppuðum stutta stund en síðan var ferðinni heitið eftir Nesjavallavegi til Reykjavíkur. Frá þjónustumiðstöðinni hjóluðum við að vegamótunum við Grafningsveg sem liggur meðfram Þingvallavatni vestanverðu og að Nesjavöllum.

Þangað til við komum að þjónustumiðstöðinni höfðum við hjólað með talsvert mikinn hliðarvind úr norðri en á Grafningsveginum fengum við vindinn í bakið og var það vel þegin hvíld. Þessi leið er sérlega falleg hjólaleið og í björtu veðri eins og þarna var, er útsýnið yfir vatnið einstakt.

 

Þegar komið var að Nesjavöllum var komið að erfiðasta hluta leiðarinnar. Brekkurnar upp af Nesjavöllum tóku við hver af annarri og ekki var alltaf auðvelt að komast þær upp hjólandi með kerruna í eftirdragi. Á endanum náðum við samt toppinum og eftir það var leiðin bein og greið til Reykjavíkur.



Þegar heim var komið höfðum við lagt að baki rúmlega 155 km í allt. Dásamleg ferð og eftirminnileg og frábært hvað hjólreiðarnar gefa manni nýja og skemmtilegri sýn á landið, jafnvel þótt maður hafi farið sömu leið hundrað sinnum áður með bíl.

Ómar Einarsson

Ómar Einarsson