Hvað er betra í upphafi aðventu en gíra sig niður í smá kósíheit og jólastemmingu með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum.  Farið verður í bústað við Úlfljótsvatn föstudaginn 30.11.2012, borðaðar piparkökur, drukkið kakó, farið í heita pottinn eða gert hvaðeina sem fólk langar til.  Frjáls dagskrá á föstudegi.  Þar eð veður geta verið válynd á þessum árstíma verður laugardagurinn ekki skipulagður fyrirfram, nema það verður hjólað eitthvert.  Hvort það verði eitthvað út fyrir heimreiðina kemur í ljós, ef hann brestur á með sól og blíðu verður hjólað í kring um Þingvallavatn, 65 km leið.  Annars niður með Úlfljótsvatni, gegn um Þrastarskóg, upp með Soginu og aftur að bústöðunum, 30 km.  Eða bara keppni, hver gerir flottasta snjóengilinn.

Taka þarf með sængurföt, tannbursta, sundföt, handklæði, kvöldmat fyrir föstudaginn og nesti til tveggja daga.  Innifalið er sameiginleg máltíð á laugardegi og hafragrautur í morgunmat.  Kostnaður er kr 4.000 á mann, 2500 kr aukalega ef fólk þarf far að bústaðnum og aftur til Höfuðborgarinnar.  Þeir sem geta boðið einhverjum far, fá þessar 2500 kr.  Reiðhjólið þarf að vera útbúið til vetrarhjólreiða, góð ljós að framan og aftan og nagladekk ef það er útlit fyrir hálku.  Endurskin og skærlitur fatnaður æskilegur, fólk þarf ennfremur að vera vant hjólreiðum að vetri til og vera viðbúið að vera úti við í nokkra klukkutíma.  Fólk getur hæglega lengt hjólahelgina með því að hjóla sjálft að bústaðnum á föstudegi og aftur heim á sunnudegi, hann er í 50 km fjarlægð frá Reykjavík, þá er hjóluð Nesjavallaleið niður að Úlfljótsvatni.  Það er líka hægt að koma á laugardagsmorgni, hjóla, snæða með okkur og láta þreytuna líða úr sér í heita pottinum.  Þáttaka í sameiginlegri máltíð og pottapartýinu er kr 2000.  Til að skrá sig í ferðina, vinsamlega sendið email á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með nöfnum þáttakenda og gsm.  Nánari upplýsingar veitir Hrönn í síma 823-9780.