Klúbburinn á sér nú 10 ára sögu og hefur hann fest rætur í hugum margra. Hann hefur verið vettvangur þeirra sem vilja ferðast um á reiðhjólum, hvort heldur sem er vegna líkamsræktar eða vegna umhverfissjónarmiða. Starfið hefur verið lýðræðislegt og mótast af áhuga meðlima hverju sinni. Grundvallarhugsjón klúbbsins hefur þó alltaf verið sú, að reiðhjólið sé besta farartækið í leik og starfi og að reiðhjólið sé besta farartækið til að bæta samfélag og umhverfi, náttúru til heilla. Klúbburinn hefur haldið starfseminni gangandi með sjálfboðavinnu. Þar hefur verið unnið kraftaverk í samfélagi, sem gerir fátt nema fyrir peninga. Starfið hefur því ekki snúist um auðsöfnun, heldur hefur það fengið að dafna út frá hugmyndaauðgi, hugsjón og áræðni meðlima. Á þessum 10 árum hafa margir komið við sögu og tekið þátt í starfinu í lengri eða skemmri tíma. Sárast hefur þó verið, að sjá á eftir efnilegum unglingum sem hafa tekið bílpróf langt fyrir aldur fram og þar með misst áhuga á reiðhjólinu sem farartæki. Þeir eru líka fjölmargir sem hafa verið með okkur frá upphafi og tekið meira eða minna þátt í félagsstarfinu. Það sama gildir um stjórnina, þar hefur fólk komið og farið, nema einn og það er undirritaður, fráfarandi formaður.
Það er alltaf hollt fyrir stofnanir og félög að endurnýja reglulega í efstu stöðum og þar kom að því að ég bauð mig ekki fram til formanns á seinasta aðalfundi. Það er sama hversu mikill áhuginn er, það endar alltaf með því að þreyta fari að segja til sín og þá er hætta á því að það bitni á starfinu. Með nýju fólki koma líka nýjar áherslur og drifkrafturinn verður meiri. Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem ég hef unnið með og hafa unnið að uppgangi klúbbsins í sl. tíu ár. Ég mun þó, nú sem áður, starfa að málefnum klúbbsins því áhugi minn á málefnum hans hefur ekki minnkað í öll þessi ár. Það er svo margt sem hægt er að gera, hjólreiðum til framdráttar. Sé litið til móður náttúru er reiðhjólið besta faratækið sem mannshöndin hefur skapað.
Með bestu kveðju,
Magnús Bergsson