Af aðalfundiAðalfundur ÍFHK var haldinn í gær, fimmtudaginn 28 okt. 2010. Tvær lagabreytingar voru samþykktar og þrjú komu ný inn í stjórn félagsins. Ný stjórn er því skipuð þeim Örlygi Sigurjónssyni formanni, Arnaldi Gylfasyni, og hinum nýkjörnu Hrönn Harðardóttur, Unni Bragadóttur  og Einari Kristinssyni. Varamenn eru Fjölnir Björgvinsson og Stefán B. Sverrisson.

Úr stjórn hverfa Ágerður Bergsdóttir gjaldkeri, Fjölnir Björgvinsson formaður  og Sesselja Traustadóttir varaformaður. Þeim eru færðar þakkir fyrir öflugt starf í þágu klúbbsins.
Nýr formaður lagði áherslu á að ÍFHK yrði áfram öflugur vettvangur hjólreiðafólks fyrir fræðslu, skemmtun og félagsskap. Einnig þyrfti að viðhalda og efla tengsl klúbbsins við önnur félög og vera almennt sýnilegur í samfélaginu og vinna að markmiðum klúbbsins, sem eru þau að efla hjólreiðar. Að öllu þessu hefur verið unnið af myndarskap innan klúbbsins og verður hvergi slakað á í þeim efnum.

Lagabreytingarnar umræddu eru á 7. gr. og 10. gr. sem hér greinir:
 
Breyting á 7. grein:
Fella út setninguna "Tapist félagsskírteini ber félagsmanni að greiða hálft andvirði nýs skírteinis og skrá nafn sitt á það í votta viðurvist."
Greinin hljóðar svona í dag:

"7. grein: Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald fyrir aðalfund, hefur hann ekki atkvæðisrétt á aðalfundi og er ekki kjörgengur í stjórn og nefndir. Við afgreiðslu atkvæða ber félagsmanni að sýna félagsskírteini. Falli greiðsla félagsgjalda niður í eitt ár hættir félagsmaður að fá fréttabréf félagsins. Tapist félagsskírteini ber félagsmanni að greiða hálft andvirði nýs skírteinis og skrá nafn sitt á það í votta viðurvist."

Greinin hljóðar svona eftir breytingu:

"7. grein: Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald fyrir aðalfund, hefur hann ekki atkvæðisrétt á aðalfundi og er ekki kjörgengur í stjórn og nefndir. Við afgreiðslu atkvæða ber félagsmanni að sýna félagsskírteini. Falli greiðsla félagsgjalda niður í eitt ár hættir félagsmaður að fá fréttabréf félagsins."

Breyting á 10. grein.
Breyta setningunni: Stjórnarfundir skulu haldnir mánaðarlega".
Greinin hljóðar svona í dag:

"10. grein: Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins. Hún ber ábyrgð á eignum þess og boðar til funda.
Stjórnarfundir skulu haldnir mánaðarlega. Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi.
Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi."

Greinin hljóðar svona eftir breytingu:

"10. grein: Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins. Hún ber ábyrgð á eignum þess og boðar til funda. Stjórnarfundir skulu haldnir að jafnaði mánaðarlega.
Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi.
Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa.
Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi."

Sjá einnig fundargerð hér .