Veðrið í sumar hefur verið alveg einstaklega gott og þá sérstaklega á suðvestur horni landsins. Fjöldi fólks hefur líka nýtt sér þetta veður og farið á milli staða á reiðhjóli. Þó eru þeir margir sem gjarnan vildu nota hjólið, en treysta sér ekki til þess þar sem aðstaða fyrir hjólreiðamenn er engin. Í þeim efnum er skipulag höfuðborgarsvæðisins algjört klúður. Það er ekki víst að allir hafi hugleitt hvað hægt er að gera til að bæta ástandið. En þeir sem hjólað hafa erlendis og kynnt sér þessi mál vita að hér þarf að taka til hendinni.

Stjórnvöld hafa lítinn áhuga á að bæta þessi mál vegna þekkingarleysis og svo eru margir sterkir aðilar sem frekar vilja auka velferð einkabílsins. Vissulega skapa stórbrotnar vegaframkvæmdir atvinnu fyrir verktaka sem ausið hafa peningum í stórvirk jarðvinnslutæki.

Halda mætti að bílar væru bæði fótstignir og demparalausir, því varla er lagður sá bílvegur nema fjöll séu sundur grafin og dalir fylltir. Stöðugt er verið að gefa bílum aukið svigrúm sem þýðir aukinn hraði, meiri mengun, fleiri bílar og fleiri slys. Á meðan við hömumst við að eyða okkar náttúrulega umhverfi og forðumst að lifa I sátt og samlyndi við náttúruna eins og hún er, þá er ekki von á góðu.

Fólk þarf að breyta sínu gildismati og sjá að hamingjan er ekki bundin við reykspúandi einkabíla, heldur við óspillta náttúru. Notkun reiðhjólsins gefur fólki möguleika á að komast hratt á milli staða en á sama tíma kynnast því að náttúran þarf ekki að vera svo erfið sem af er látið. Hjólreiðabrautir taka lítið pláss samanborið við bílvegi og heilsteypt brautakerfi gæti tekið víð miklum fjölda hjólandi einstaklinga, því einn meðalstór bíll tekur pláss á við 12 reiðhjól. Því er mikilvægt að almenningur verði sér meðvitaður um núverandi skipulag og kynni sér möguleika til úrbóta. Að lokum ættu allir að láta í sér heyra á opinberum vettvangi. En hvað er til bóta svo ástandið verði þolanlegt ?

Það vantar allar umferðamerkingar. Sem dæmi þá er ekki til það umferðamerki sem varar ökumenn við hjólandi umferð þar sem akvegur og hjólreiðabraut skarast. Í huga hjólreiðamanna er það sama og að það vantaði gangbrautarmerki eða stöðvunarskildumerki. Svo vantar líka stöðvunarlínur. Í núverandi skipulagi eru margar á röngum stað svo bíllinn er oft stöðvaður á gangstéttinni.

Brýn nauðsyn er að koma upp nothæfu stofnbrautakerfi milli borgarhluta, einstakra byggðra svæða og milli sveitarfélaga s.s. frá Reykjavík til Mosfellsbæjar og Hafnarfjarðar þar sem hjólreiðastígar eru aðgreindir frá göngustígum og annarri umferð, því réttur hvers og eins þarf að vera ótvíræður.

Ein ástæða þess að gangstéttir eru ónothæfar fyrir hjólreiðafólk eru brúnirnar á gangstéttarfláunum. Þær eru of háar, svo þær auka slysahættu á fólki og hjólastólafólki er gert mjög erfitt fyrir. Á sama tíma freistast margir til að hjóla í bilaumferðinni.
Sleppa þarf öllum óþarfa beygjum og gera hjólreiðafólki jafn hátt undir höfði og bíleigendum. Hanna þarf allt brautakefi þannig að það verði nothæft til daglegrar notkunar.

Gangbrautaljós eru í sumum tilfellum staðsett þannig að þau sjást ekki og staðsetning umferðaljósa bjóða ökumönnum upp á að fara yfir stöðvunarlinu.

Semja þarf umferðalög fyrir og í samvinnu við hjólreiðafólk. Gatna- og skipulagsyfirvöld þurfa líka að vinna með okkur svo brautakerfið verbi nothæft.

Við höfum ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá yfirvöldum enda vilja þau sem minnst af okkur vita, en með þolinmæði, tíð og tíma mun það breytast. Það er bara verst hvað það þarf að kosta mörg slys.

Magnús Bergsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum, október 1993.