Það helsta í starfsemi ÍFHK 1999 á 10 ára afmæli klúbbsins

Þá er komið að því að gera upp starfsárið og það verður að segjast eins og er að mikið hefur verið gert. Fyrst verður þó að nefna þá gríðalegu fjölgun sem orðið hefur á félagsmönnum en það eru rétt innan við 100 nýjir félagsmenn sem að við bjóðum velkomna til okkar og vonum að með nýju fólki komi nýjar hugmyndir og röggsamt fólk í framkvæmdir á starfseminni. Því betur má ef duga skal í því að bæta aðstöðu hjólafólks, þeirra sem að kjósa að nota hjólið sem sitt samgöngutæki, part úr ári eða allt árið.

Það má nú segja að fyrstu mánuðir starfsársins hafi einkennst að háum símareikningum því að heilu dagarnir fóru í að leita eftir húsnæði fyrir starfsemina og var hringt og kannað allt sem við heyrðum um og fólki datt í hug að gæti verið laust og hentugt. Þetta hafðist að lokum þegar að við fengum leigt gamalt slökkvitólahús að Brekkustíg 2 af Reykjavíkurborg. Þar þurfti heldur betur að taka til hendinni því að húsið var í vægast sagt slæmu ástandi. Ganga framkvæmdir vel og er einn af stofnendum klúbbsins, Gísli Haraldsson, búinn að vera yfirsmiður og hefur hann unnið alveg gríðalega mikið verk og þökkum við honum og fjölskyldu hans alveg kærlega fyrir frábært verk sem allt hefur verið unnið í sjálfboðavinnu. Það hefur einnig góður kjarni fólks unnið við steypuvinnu, málingarvinnu úti og inni, flutninga, leggja rafmagn, leggja flísar, setja upp hillur, taka til og fara með rusl og örugglega margt fleira. Og ekki má gleyma verkfræðingnum og arkitektinum okkar sem skila teikningum til Byggingarnefndar svo að allt sé nú löglegt. En við viljum bara segja TAKK KÆRLEGA.  Skoðið hér á vefnum nánari umfjöllun um húsið í máli og myndum

Næst er að nefna Hjólaþing í Ráðhúsinu 25 mars þar sem Íslenski fjallahjólaklúbburinn og Landssamtök hjólreiðamanna stóðu fyrir ráðstefnu um hönnun mannvirkja fyrir hjólhestinn, öryggismál hjólreiðafólks og samtengingar sveitarfélaganna. Þar var stefnt saman hjólafólki og þeim sem fara með skipulags og framkvæmdamál hjólafólks og var betur fjallað um ráðstefnuna í síðasta Hjólhest. Páll Guðjónsson gerði bækling með myndum úr reynsluheim hjólreiðafólks hérlendis sem erlendis, og stóðust íslendingar þar alls ekki samanburð. Fór þessi bæklingur mismikið fyrir brjóstið á ráðamönnum og fannst sumum við vera heldur heimtufrek en það er öruggt að þessi bæklingur kom mörgum til að sjá ástandið í nýju ljósi, með augum hjólreiðamannsins, en það var einmitt ætlunin. Flestum ábendingunum var þó vel tekið og margt verið lagfært. Var ráðstefnan mjög gagnleg og bætti skilning fólks á vandamálum hvors hóps en það sem helst gladdi okkur hjólreiðafólk var að okkur var boðið að koma með okkar hugmyndir að skipulags-málum og úrlausnir á því sem að okkur finnst betur meiga fara. Nú vantar okkur fólk í vinnuhóp til að vinna áfram í þessum málum og koma á góðri samvinnu við skipulagsyfirvöld og framkvæmdaraðila.  Skoðið hér á vefnum efnið sem var í bæklinginum og því sem hefur verið bætt við seinna.

ÍFHK var boðið að vera með í sýningunni Barnið 99 í Perlunni í bás með hjólreiða-versluninni Hvelli og tókum við að okkur að hugsa um hjólreiðahring eða þraut sem lítið varð af vegna veðurs en í staðinn mættum við með nokkra barnavagna aftan á hjólum og gerði það mikla lukku hjá börnunum sem prófuðu að sitja í vagninum smá hring.

Einnig hjálpuðu félagsmenn til við Hjóladaginn í Hafnarfirði 12. júní, Reykjavíkurmaraþonið 22. ágúst og farið hefur verið á umhverfisráðstefnur, ferðaráðstefnur og fundi um merkingar göngu og hjólaleiða á hálendinu. Þá eru ónefnd þau bréf sem skrifuð hafa verið til ráðamanna og þeir fundir sem hafa verið setnir hjá ýmsum stofnunum til að reyna að fá bætta aðstöðu okkar bæði í heild og í einstaka málum.

Ferðir voru farnar nokkrar á árinu og var fjölskylduferðin á Nesjavelli fjölmennust. Hér má skoða svipmyndir úr ferðinni. Ný ferð á Látrabjarg tókst mjög vel þrátt fyrir rigningu. Svo var haldið upp á 10 ára afmæli klúbbsins í Skorradal með grillveislu 2. – 4. júlí og ferð í Jökulheima var líka farin í ágúst. Hér má skoða svipmyndir úr ferðinni.  Klúbbmeðlimir fjölmenntu í hjólakeppni í Skagafirðinum Skagfirsku 8una og var það mjög gaman. Persónuleg og eldri met slegin og ætla flestir að gera betur næsta ár. Við eigum myndbandsupptöku frá 8unni í klúbbhúsinu okkar.  Hér má skoða svipmyndir úr ferðinni.

Klúbburinn stóð fyrir námskeiðum í ferðamensku og viðgerðum, einnig vorum við dugleg að hittast og halda upp á áfanga í húsnæðismálum með grillveislum og samsætum að því tagi þó að aðstaðan væri ekki alltaf góð en það bætir félagsandann.

Björn Finnsson og félagar hafa farið kvöldferðirnar sínar í allt sumar og eru þær orðnar fjölmennar og ómissandi þáttur í starfseminni. Allavega höfum við heyrt um 1 hjónaband sem hann ber ábyrð á svo að þessar ferðir eru farnar að skila þjóðfélaginu hagnaði fyrir utan góðan anda í hópunum.

5. ágúst var stofnuð norðurlandsdeild ÍFHK og er það mest af frumkvæði Ágústar Arnar Pálssonar í Petro ljósmyndum á Akureyri sem vill að fólk fari að vera í félagi en ekki hvert í sínu horni með áhugamálið. Mikill hugur er í norðanfólki að fá viðgerðaraðstöðu, fara í styttri og lengri hjólaferðir og að hittast reglulega og er stefnt á að byrja á fullum krafti með vorinu. TIL HAMINGJU NORÐANFÓLK. 

Páll Guðjóns hefur að venju séð um tölvuvinnuna bæði á heimasíðunni og Hjólhestinum auk þess að útbúa Hjólaþingsbæklinginn, sem skoða má á heimasíðunni, og svarað flestum þeim bréfum sem berast klúbbnum bæði innlendis og erlendis frá. Það hefur verið mjög gaman að sjá þakkláta ferðamenn koma í heimsókn í klúbbhúsið og leita Pál uppi til að þakka honum góðar leiðbeiningar.

Held ég að þetta sé orðin góður annáll og ætla að minnast aðeins á það sem að við höfum hug á að gera á næsta ári og vantar fólk í:

1) Við höfum hug á að fara með hugmyndir í alþingismenn og eða samgöngunefnd um að setja hjólavegi í vegalög svo að ef það er einhver lögfræðimenntaður klúbbmeðlimur eða einhver sem passar akkurat í þetta verkefni væri frábært að viðkomandi hefði samband og kæmi okkur af stað.

2) Fólk verði duglegt að skrá sig í nefndirnar á aðalfundinum og við förum að vinna betur að okkar málum, því að það verður ekki bankað upp á og okkur færðar tengingar milli sveitafélaga eða aðstæður sem að henta okkur á silfurfati. Við verðum að vinna í þessum málum og við erum EKKERT AÐ GEFAST UPP.

3) Stefnum á að efla unglingastarfið með vorinu og fara að hafa opið hús á laugardögum líka til að fólk geti komist í viðgerðaraðstöðuna oftar og unglingarnir geri það sem þau vilja.

Nú eflum við klúbbinn ennþá meir og þurfum líklega að fara að leita að stærra húsnæði eftir nokkur ár ef fram heldur sem horfir í félagafjölgun.

Fyrir hönd stjórnar

Alda Jóns

© Hjólhesturinn 3.tlb. 8.árg. 1999