LHM - Landssamtök hjólreiðamanna voru stofnuð veturinn 1995 - 1996. Að samtökunum standa félögin tvö sem starfandi eru um þessar mundir í landinu auk allra hjólreiðaáhugamanna landsins.

Markmiðið er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum okkar hjólreiðamanna auk þess að vera einskonar pólitískir varðhundar gangvart stjórnvöldum. Samkvæmt lögum samtakanna eru markmiðin þessi:
“Efla hjólreiðar á Íslandi. Samtökin skulu útbreiða og efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt, fjölskylduvænlega almenningsíþrótt, heilsusamlegan lífsmáta og einnig sem samgöngumáta.”

Ákveðin kaflaskil urðu í mars ´97 er samtökin fengu að skipa mann í umferðarráð fyrir hönd hjólreiðarmanna. Þar með viðurkenndu stjórnvöld tilvist okkar og það hversu mikilvægt það er fyrir opinbera aðila að hafa fulltrúa hjólreiðamanna að leita til. Hefur Björn Finnson verið fulltrúi okkar síðan og sótt fundi ráðsins.

Síðastliðið ár höfum við átt í samskiptum við Umferðar- og skipulagsnefnd Reykjavíkur varðandi stígamál, nágrannasveitafélögin varðandi samgöngumál, auk samskipta við umferðarráð. Við höfum einnig tryggingamál hjólreiðamanna í athugun og höfðum samband við lögreglu varðandi bifreiðar sem skildar eru eftir á gangstéttum og birtum ályktun þar að lútandi í dagblöðum. Eins og hjólreiðamenn vita hefur enn engin lausn fundist á því vandamáli sem skapaðist fyrir hjólandi þegar Akraborgin hætti siglingum upp á Skipaskaga og engar úrbætur virðist vera í sjónmáli. Samtökin höfðu í sumar samband við Spöl varðandi hjólreiðar um göngin og hafa farið þess á leit að þær verði leyfðar að nóttu til. Auk þess höfum við haft samband við Sæmund sérleyfishafa varðandi flutning á reiðhjólum undir Hvalfjörð án þess að nein breyting sé fyrirsjáanleg á framkvæmd þeirra.

Fjárhagslega standa samtökin mjög veikt, tekjur eru engar, en þó má segja að það sé ein af forsendunum fyrir áframhaldandi starf að tryggja fjárhagslega afkomu. Ýmis kostnaður fylgir rekstri samtaka af þessu tagi. Lög samtakanna gera ráð fyrir að aðalfundur sé auglýstur, það kostar að halda uppi samskiptum við tilsvarandi samtök í nágrannalöndunum og skipulagsgögn sveitarfélaga eru ekki ókeypis svo eitthvað sé nefnt. Í nágrannalöndunum þykir sjálfsagt að hið opinbera styrki tilsvarandi samtök með fjárframlögum þannig að eðlilegt aðhald sé að samfélaginu hvað snertir hjólreiðamál. Þetta ætti að sjálfsögðu að vera með líkum hætti hérlendis, þanng að við hjólreiðamenn eignumst fulltrúa sem vinna að málefnum okkar í fullu starfi og á launum.

Þar sem ekki eru enn til staðar íþróttasamtök sem vinna að framgangi hjólreiða sem íþróttar, með tilheyrandi aðild að Íþrótta og ólympíusambandi íslands, er það hlutverk Landsamtakanna að sinna því . Sem stendur er það einungis Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem hefur keppnir í hjólreiðum á stefnuskrá sinni. Samtökin stefna að því að stuðla að fjölgun hjólreiðafélaga og að stofnað verði sérsamband hjólreiða með aðild að ÍSÍ. Allt er þetta hluti af því markmiði okkar allra að búa betur í haginn fyrir okkar ástkæra tvíhjóla reiðskjóta og auka veg hans og virðingu meðal landans.

Með hjólhestakveðju,
Gunnlaugur Jónasson, formaður LHM.