Landssamtök hjólreiðamanna hafa vakið athygli Fjármálaráðuneytisins á því að tollnúmer virðast ekki greina nægilega vel á milli mismunandi tegunda vistvænna farartækja. Óskað var eftir því að tollnúmer verði lagfærð, þannig að þau greini með skýrum hætti á milli mismunandi farartækja eins og reiðhjóla, rafreiðhjóla með fótstigum, rafknúinna bifhjóla, rafknúinna hlaupahjóla og rafknúinna hlaupabretta.

Það er mikilvægt að þetta verði lagað því gera má ráð fyrir að vistvæn farartæki verði meira áberandi í samgöngumynstri okkar Íslendinga. Rafreiðhjól eru reiðhjól en rafbifhjól eru bifhjól í skilningi laga og gilda ólíkar reglur um þessi farartæki t.d. hvað varðar skattlagningu, skráningu o.s.frv. Það skiptir því verulegu máli að hægt sé að greina á milli þeirra í innflutningi. Eins og sakir standa lenda bæði rafreiðhjól, sem flokkast undir reiðhjól, og rafbifhjól (létt bifhjól í flokki I)  í sama tollflokki: 8711.9021.

Vorið 2015 var með breytingu á umferðarlögum kveðið á um að rafbifhjól yrðu skráningarskyld ökutæki hjá Samgöngustofu. Samgöngustofa hefur ekki hafist handa við skráningu þeirra og vandséð hvernig það er hægt ef þau eru ekki aðgreind frá rafreiðhjólum í innflutningi.

 

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016