Margir ráku upp stór augu hérna um árið þegar tveir lögreglumenn Júlíus Óli og Björn Gíslason birtust einn sumardaginn 1994 á reiðhjólum í miðborg Reykjavíkur í lögreglubúning, með hvíta reiðhjólahjálma og hliðartöskur á hjólunum sem í voru nauðsynlegur búnaður til starfans.

Litu margir á þennan nýja eftirlitsmáta sem skrautsýningu lögregu í tilefni góðviðrisins fremur en nauðsynlega viðbót við hefðbundna löggæslu. Héldu margir um tíma að þarna væru þeir félagar að grínast frekar en að þarna lægi einhver alvara að baki, en eitt er víst að þeim félögum var fúlasta alvara og kynntu þeir þarna til sögunnar þátt löggæslunnar sem er og á eftir að verða sjálfsagður hluti af eftirlitsmáta lögreglunnar.

Nú þegar að þetta er ritað á lögreglan í Reykjavík sjö reiðhjól sem notuð eru við löggæslu þegar veður leyfir. Notkun reiðhjólanna hefur hingað til verið á ýmsa vegu og það á einnig við um búnað þann og fatnað sem lögreglumenn klæðast við notkun þeirra. Í byrjun var að öllu jöfnu stuðst við hinn almenna lögreglubúning ásamt reiðhjólahjálmi og tösku undir búnað sem fest var á hjólið. En þeir sem mest notuðu hjólin komust fljótt að því að hinn venjulegi búningur hentaði afar illa á reiðhjóli við mikla áreynslu, þar sem hann heldur inni miklum hita, er þungur og óþjáll þegar hjóla þarf við hinar ýmsu aðstæður. Því var brugðið á það ráð að kaupa reiðhjólabuxur af bestu gerð ásamt reiðhjólahönskum og þá notaður jakki tvö með eða þegar veður leyfði verið á skyrtunni. Reiðhjólin sem notuð eru eru Mongoose Alta og Gary Fisher og sýnist sitt hverjum um kosti og galla þessara reiðhjóla. Þessi reiðhjól eru á viðráðanlegu verði og henta sem götuhjól, en þegar í ófæru er komið eru til betri kostir en mun dýrari og sérhæfðari.

Tvö af þessum reiðhjólum sem nefnd eru hér að framan voru keypt vorið 1995 og eru nú staðsett á lögreglustöðinni í Grafarvogshverfi. Þau eru af gerðinni Mongoose Alta, og eru með hinum hefðbundna búnaði reiðhjóla samkvæmt reglugerð auk hliðartösku eins og nefnt var hér að framan. Þessi reiðhjól eru ætluð öllum úthverfastöðvum til notkunar í viðkomandi hverfi sem viðbót við annan eftirlitsmáta. Við kaup á þessum reiðhjólum var stuðst við reiðhjól sömu tegundar og embættið á og hafa reynst vel sem götuhjól. Þegar fyrst var byrjað að nota þessi reiðhjól í Grafarvogshverfi voru reiðhjólalögreglumennirnir klæddir hefðbundnum lögreglubúningi, en vegna ástæðna sem minnst var á hér að framan var strax reynt að finna hentugri klæðnað fyrir þá. Embættið hafði gefið leyfi fyrir notkun á reiðhjólabuxum og átti því bara eftir að finna hentugan jakka til starfans því jakki tvö reyndist alltof þungur og og óþjáll við þesssar aðstæður. Fengnir voru að láni frá G. Á. Péturssyni svartir vind- og vatnsþéttir jakkar úr Aditex-öndunarefni og hafa þeir reynst mjög vel. Vasar eru á jakkanum fyrir talstöðvar og annan persónulegan búnað lögreglumannsins, en tækjabeltið ber hann undir jakkanum. Annar búnaður sem lögreglumaðurinn þarf er í hliðartösku reiðhjólsins og má nefna þar A-4 skrif- og teikniblokk, sjúkragögn, búnað til að opna bifreiðar og fleira sem lögreglumaðurinn getur ekki án verið. Auk reiðhjólabuxna var ákveðið að vera í svörtum gönguskóm og kom þessi búnaður mjög vel út í alla staði. Þarna er lögreglumaðurinn orðinn léttklæddur og lipur í snúningum auk þess sem hiti og sviti háir honum ekki lengur þar sem Aditex-jakkinn sér um að lögreglumaðurinn er vel loftræstur við áreynsluna.

Verkefni reihjólalögreglumannsins er fyrst og fremst viðbót við hefðbundið eftirlit í hverfinu eða á afmörkuðum svæðum þar sem hans er þörf á öllum tímum sólarhrings. Reiðhjólalögreglumaður í Grafarvogi hefur tekið að sér fjölda verkefna sem talið er að lögreglumaður geti eins síns lið geti ráðið við, t.d. bílaopnanir, aðstoð vegna smá umferðaóhappa, innbrot, bifreiðastöðumál, nágrannaerjur, eftirlit með nýbyggingarsvæðum, eftirlit með léttum bifhjólum og margt fleira. Lögreglumaður á reiðhjóli fer um svæði hverfisins eftir göngustígum og slóðum sem lögreglumenn almennt koma ekki á eðli málsins samkvæmt. Lögreglumaðurinn hittir íbúa svæðisins og gefur sig á tal við þá. Er það góð uppspretta upplýsinga, t.d. um málefni hverfisins, þau mál sem eru efst á baugi hjá íbúunum, þá menn sem stunda vafasama iðju í hverfinu og ýmislegt annað sem varðar löggæslu á svæðinu. Lögreglumaðurinn lærir einnig að þekkja hverfið sitt og sjá það frá sama sjónarhorni og íbúar þess.

Eðli málsins samkvæmt þarf reiðhjólalögreglumaður að vera í þokkalegri líkamlegri þjálfun, þar sem hann þarf að geta komist yfir varðsvæði sitt án þess að bíða varanlegan skaða af. Því meira sem lögreglumaðurinn hjólar því betur venst hann reiðhjólinu og lærir að nýta sér gírskiptingar til að létta sér yfirferðina en á flestum varðsvæðum Reykjavíkurlögreglunnar er töluvert um brekkur sem margar hverjar geta verið erfiðar. Við mjög erfiðar eða illfærara aðstæður má svo setja reiðhjólið á öxlina og hlaupa með það þar til í betri aðstæður er komið. Reiðhjólalögreglumaður þarf einnig að kunna vel á hjól sitt, þeir þurfa að vita af hverju hjólið fer áfram þegar stigið er á fótstigin. Þeir þurfa að geta gert við smábilanir og stillt gíra og bremsukerfi.

Þegar litið er til erlendra lögregluliða sem hafa sérstakar reiðhjóladeildir er krafa um að lögreglumenn sem þar starfa séu í mjög góðu líkamlegu ásigkomulagi. Bandaríkjamenn eru hvað lengst komnir í að þróa sínar reiðhjóladeildir og t.d. hjá reiðhjóladeild lögreglunnar í New York fara lögreglumenn í gegnum mánaðar námskeið áður en þeir hefja störf. Þar fara þeir í gegnum líkamlega þjálfun, læra að nota reiðhjólið sér til varnar og á sérhæfðan hátt eins og t.d. við handtökur, við að fella menn o.s.frv. Þar læra þeir einnig almennt viðhald reiðhjólsins og umgengni. Þar eins og annarsstaðar er ætlast til að reiðhjólalögreglumenn séu við störf á afmörkuðum svæðum og á svæðum þar sem hefðbundin lögreglutæki komast ekki að.

Í viðræðum við lögreglumenn eru þeir almennt mjög jákvæðir gagnvart þessum nýja eftirlitsmáta og vildu margir þeirra fá að taka þátt í starfinu sem reiðhjólalögreglumenn ef færi gæfist. Lögreglumenn hafa þó nefnt það í gegnum tíðina að klæðnaður lögreglumannsins væri óhentugur. En með nýjum klæðnaði má búast við að lögreglumenn vilji margir vinna á þennan hátt. Draumur þeirra okkar sem reynt hafa þennan hluta löggæslunnar er sá að þetta verði fastur þáttur í starfinu hjá almennu deild lögreglunnar, bæði gert út frá aðalstöð á öllum vöktum og frá öllum úthverfastöðvum. Þessi eftirlitsmáti kostar ekki mikla peninga, hann kallar ekki á aukinn mannskap og bíður upp á mjög góða líkamsrækt á meðan starfað er að mjög fjölbreyttu og skemmtilegu starfi.

Að lokum ætla ég mér að leyfa mér að koma með tillögu um námsskeiðshald fyrir verðandi reiðhjólalögreglumenn. Því að ég er fullviss um að í framtíðinni verði stofnuð hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík sérstök lögreglureiðhjóladeild og mun aðsókn í hana verða meiri en marga grunar. Þessi framtíðarspá, ef svo má kalla, er ekki svo fjarlæg því staðreyndin er sú að bæði Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn og Jónas Hallgrímsson stöðvarstjóri hafa staðið vel við bakið á þeim sem starfað hafa að tilraunum á þessu nýja sviði löggæslu og hvatt menn til að halda úti þessum eftirlitsmáta og verið mönnum innanhandar varðandi val á búnaði og tilraunir með hann.

Guðmundur Bogason flokkstjóri.

Úr Lögreglublaðinu desember 1996.

(Birt með góðfúslegu leyfi Þórðar Jónassonar, ritstjóra Lögreglublaðsins.)