
Ég vakna upp á gjörgæslunni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Það tekur svolitla stund að síast inn í vitund mína hvar ég er stödd og hvers vegna. Svo átta ég mig á því að ég er að vakna eftir aðgerð á hné. Ég reyni að hreyfa fótinn en finn ekki fyrir honum. Mín fyrsta hugsun er: „Ég skal upp á lappirnar aftur.“ Ég hafði farið úr liði á hné. Við það skaddaðist æð sem nauðsynlega þurfti að loka. Liðbönd voru ónýt eða eydd og heim fór ég með þau skilaboð að ég þyrfti að mæta fljótlega í æðaaðgerð.